sunnudagur, 18. október 2020

Sagan af UTLO 2019

 UTLO

Ultra Trail Lago d‘Orta

Utanvegahlaup við Orta vatnið

UTLO sagan byrjaði á kynningarfundi hjá Hlaupahópi FH, þar sem okkur sagt frá hlaupaferð hópsins árið 2019. Farið yrði í utanvegahlaupaferð til Grænlands. Þvert yfir jökulinn. Skyldubúnaðurinn væri ekki álteppi og flauta, heldur bakpoki og rifill. Þeir allra fljótustu myndi kannski klára, en sennilega myndu fáir skila sér í mark 😊 Eftir þetta góða grín kom svo í ljós að við værum ekki á leiðinni í kuldann á Grænlandi, heldur í góða veðrið á Ítalíu(annað átti reyndar eftir að koma á daginn). Haldið skyldi til norður Ítalíu og hlaupið frá bænum Omegna við vatnið Orta. Hlaupið heitir því fagra nafni Ultra Trail Lago d’Orta, eða UTLO. Þar væru vegalengdir í boði fyrir alla: 17km, 32km, 64, 100km og 140km.

Ég var horfði strax til 100km ásamt Önnu Siggu hlaupafélaga og það þurfti í raun ekki mikið til; við vorum ákveðin og skráðum okkur. Áður en yfir leið höfðu 4 aðrir skráð sig þannig að þetta stefndi í gott partý. Hinir voru; Ásta Björk Guðmundsdóttir, Brynja Baldursdóttir, Viggó Ingason og Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir. Þetta yrði langstærsta hlaupaverkefni mitt til þessa, hingað til hafði ég farið fjórum sinnum í ~50km hlaup. Þetta myndi því vera verðugt verkefni. Ekki myndi svo spilla fyrir að komast í 100 kílómetra klúbbinn á Íslandi.


[Hópurinn rétt fyrir start ásamt Friðleifi Friðleifssyni, þjálfara HHFH]

Undirbúningurinn fólst í að hlaupa, hlaupa og hlaupa, bæði með Náttúruhlaupum og FH. Sem hluti af undirbúningnum tók ég m.a. þátt í eftirfarandi keppnishlaupum:

·        25. maí: Mýrdalshlaupið, 23km með 878m hækkun

·        15. júní: Mt. Esja Ultra Maraþon, 46km með 3300m hækkun

·        13. júlí: Laugavegur Ultra Maraþon, 52km með 1500m hækkun

·        3. ágúst: Súlur Vertical, 28km með 1200m hækkun

·        24. ágúst: Matterhorn Ultraks, Sviss, 50km með 3300m hækkun

·        31. ágúst: 5 tindahlaup í Mosó, 34km með 1100m hækkun

Frá áramótum fram að hlaupi hafði ég hlaupið 149 sinnum tæpa 1700 kílómetra, sem er nú í hóflegri kantinum. Samtals hækkun í þessum hlaupum skv. Strava: 53.783 metrar. Planið var að tvinna CrossFit inn í sem styrktjarþjálfun á undirbúningstímabilinu, en einhverra hluta vegna, eins og á síðasta ári, þá varð lítið úr því. Undirbúningurinn fólst því mest í að hlaupa utanvega og helst á fjöllum og fellum.

Ferðin & hlaupið

Við flugum út á fimmtudegi, deginum fyrir hlaup. Föstudagurinn fólst bara í því að taka því rólega. Við fórum í morgunmat síðan fór ég upp á herbergi að græja föt og skyldubúnað og reyna að hvíla mig.  Drífa hafði farið með öðrum FH-ingum í skoðunarferð og þegar hún kom til baka seinni partinn þá áttaði ég á því að ég hafði alveg gleymt að borða síðan um morguninn.  Við fórum því og ég fékk mér nett salat. Fórum svo aftur með hópnum stuttu síðar, um kl 19 og fékk mér pizzu. Er það ekki ágætis fyrir átök?

Ég reyni yfirleitt að vera með einhverskonar næringarplan. Stilli Garmin úrið þannig að það minni mig á að nærast.  Í þessu hlaupi skyldi það pípa á 42. mínútna fresti. Iðulega hlýði ég pípinu og fæ mér eitthvað. Það gekk nú ekki alveg eftir að þessu sinni.  Ég var með Gel, hlaup og vöfflur frá GU og nokkra orkubari. Planið var að rótera þessu öllu saman ásamt því sem yrði í boði á næringarstöðvunum.

Eins og sannir Íslendingar fylgdumst við grannt með veðurspánni, hún var ekki spennandi; rigning, rigning og meiri rigning. Þetta var ekki það eina; það átti að breyta brautinni. Við í 100km tókum þessu með stóískri ró, svo lengi sem vegalengdin myndi lengjast vorum við sátt. En það var ekki svo, á keppnisdag var okkur tilkynnt að vegna mikilla vatnavaxta í einni ánni, væri búið að breyta leiðinni og hún myndi styttast um ~5 kílómetra og hækkun myndi einnig minnka.  Þetta voru vonbrigði, því ljóst var að við myndum ekki kljúfa 100 kílómetrana, sem einnig merkti að inngangan í 100 kílómetraklúbbinn myndi fjúka út um gluggann. Við vorum þó  fljót að ná gleðinni og gíra okkur upp í verkefnið fyrir höndum.

Nú var komið að þessu. Við sexmenningarnir hittumst í andyri hótelsins þaðan sem Friðleifur Friðleifs, myndi keyra okkur yfir til Omegna. En þegar við komum þangað, beið okkar óvænt ánægja, hópur FH-inga hafði myndað „göng“ okkur til heiðurs og fögnuðu okkur vel og óskuðu góðs gengis.

 


Við vorum öll klár í þetta verkefni og loks vorum við komin á startlínuna ásamt um 300 hlaupurum.  Veðrið var frábært, alveg logn og engin rigning okkur til ánægju. Kynnirinn babblaði eitthvað á ítölsku í míkrafóninn og Þórdís heyrði að hann minntist á „CHIP“ og „molto importante“! Við áttuðum okkur á því að við áttum eftir að skanna tímaflöguna okkar og mínúta í start. Sem betur fer þurftum við ekki að fara langt og náðu allir að skanna í tæka tíð.

Klukkan sló 23:00 og allt í einu var hlaupið byrjað! Eins og við manninn mælt þá byrjaði að rigna um leið. Hópurinn fór greitt af stað frá Omegna, sem er í ekki nema 200 metrum yfir sjávarmáli.

Fljótlega, vegna þröngra stíga í þorpinu þurftu allir að stoppa. Svo hófst fyrsta klifrið, um 1200 metra hækkun á 7 kílómetrum upp á Mottarone fjallið í 1460 metra hæð. Viggó og Þórdís fóru á undan en við hin, Anna Sigga, Ásta, Brynja og ég héldum hópinn og það var mikið GAMAN hjá okkur.  Fyrsta drykkjarstöðin var á toppi Mottarone og þar fengum við okkur næringu og tókum mynd, en ekki hvað.


[Anna Sigga, Brynja, Ásta og ég á fyrstu drykkjarstöðinni í Mottarone.
Augnabliki eftir að þessi mynd var tekin var ég búin að týna öllum stelpunum]

Mikið var af fólki á drykkjarstöðinni sem varð til þess að allt í einu var ég búinn að missa af stelpunum. Vissi ekki alveg hvort þær voru farnar eða ekki, en ákvað að hlaupa af stað og var því að mestu einn næstu 15 kílómetrana að næstu drykkjarstöð sem var í Omegna.  Þar hitti ég Drífu mína og Finn hennar Þórdísar. Svakalega gaman að sjá þau og fá hvatningu áfram inn í nóttina. Þau sögðu mér líka að stelpurnar væru aðeins á undan mér. Fannst gott að vita hvar þær væru. Ég skellti í mig smá næringu, ristað brauð með sultu, salami og skinku og hélt svo áfram við hvatningaróp Drífu og Finns. Þetta var ekki í síðasta skiptið sem ég hitti þau í hlaupinu.

[Mikið kátur að sjá Drífu mína í Omegna eftir u.þ.b. 23km hlaup]

[Bestu stuðningsmennirnir; Drífa og Finnur]

Meira fjör og meira klifur upp snarbrattar hlíðar Mazzoccone, aftur ~1200 metra hækkun en nú á um 10 kílómetra kafla. Margar brekkurnar þarna voru með 20 – 30% halla og sumar aðeins meira! Þarna náði ég Önnu Siggu og við vorum saman um stund uns ég tók fram úr. Næsta drykkjarstöð var í 37km í Alpe Camasca. Þar voru allar sömu veitingarnar og áður en líka súpa, mmm, einhverskonar kraftaseyði með pasta og svo henti ég nokkrum skinkubitum út í. Voða voða fínt. Það hafði aðeins bætt í rigninguna. Ég áttaði mig á því þegar ég fór að skjálfa smávegis að ekki mátti stoppa of lengi á næringarstöðinni. Ég notaði því tækifærið þegar annar hlaupari fór að stað og hélt í humátt á eftir.  Alltaf gott að vera í samfloti.

Fljótlega eftir að hlaupið byrjaði fékk ég smá verk í vinstri hásin.  Þetta er eitthvað sem hefur angrað mig af og til og mér leist nú ekki alveg á að fá verk svona snemma hlaups. En mér til mikillar gleði þá var þessi verkur bara alveg horfinn!  Í staðinn var ég kominn með verk í hægri hnésbót. Einnig kunnuglegur verkur. Ég átti svo eftir að fá verk í vinstri rasskinn og svo báða ökklana en sá verkur hægði verulega á mér síðustu 10 – 20 kílómetrana.

Þegar maður er einn svona lengi þá tekur maður upp á ýmsu, spjalla við sjálfan sig; „Heyrðu Svanur, þarft þú ekki að laga þennan verk í hásin?“ „Jú heyrðu, ég fer í það.“ „Ok“. Einnig var vinsælt hjá „okkur Svani“ að breyta lögum í hlaupalög; Úti alla nóttina varð t.d: „Hlaupa alla nótina“ og nokkur leikskólalög fengu yfirhalningu: „Það er svo voða gaman, að hlaupa svona saman…“

Rétt fyrir sólarupprás var frekar napurt, búinn að hlaupa í  8 klukkutíma og ennþá rigning. Það er skemmst frá því að segja að það rigndi allan tímann. Rigningin jókst eftir því sem leið á og varð hreinlega að skýfalli á laugardagskvöldinu. Þetta hafði auðvitað áhrif á brautina sem var annaðhvort pollur, drullusvað eða einhverskonar drullublanda af hvorutveggja.

[Ústýnið sem við fengum í hlaupinu ...hefði getað verið aðeins betra :)]

En þegar birti til fékk maður einhvern aukinn kraft, hefði verið geggjað að fá smá sólarglætu. Í staðinn var maður feginn trjánum sem skýldu manni fyrir mesta regninu.

Hæðsti punktur hlaupsins var á toppi Croce fjalls í 1640 metra hæð, þaðan lá leiðin niður í Alpe Sacci þar sem var næring, meiri kraftasúpa með skinku, mmm mmm mmm. Þarna var ég sirka hálfnaður.

[Nokkuð hress og hálfnaður með hlaupið]

Frá Alpe Sacci var svo 200 metra klifur upp á Novesso fjall og síðan 800 metrar niður í Arola, þar sem var drop-off stöð eftir u.þ.b. 57 kílómetra. Þar beið taska með þurrum fötum og auka næringu. Þarna hitti ég Ástu Björk og við ákváðum að verða samferða áfram. Raunin varð sú að við hlupum saman restina af hlaupinu og gátum hvatt hvort annað áfram til skiptis.

Á drop-off stöðinni fór ég í þurra peysu og jakka en lagði ekki í að skipta um sokka og skó. Hér hefði líka verið sterkur leikur að vera með annan hlaupabakpoka, því auðvitað fór sá blauti yfir þurru fötin.

Ásamt fötunum var ég með auka næringu …og þar á meðal tvær Hleðslur. Á þessum tímapunkti fannst mér mjög sniðugt að fá mér, ekki bara eina heldur þambaði ég báðar fernurnar. Ekki gott. Ég hafði því enga lyst á krafta-pasta-súpunni og var frekar þungur og bumbult eftir að við lögðum af stað.

En áfram héldum við, það var stutt í næstu næringarstöð í Boleto, ~65km. Þar beið heldur betur óvænt ánægja. Drífa og Finnur tóku fagnandi á móti okkur og færðu okkur m.a. besta kaffibolla sem ég hef nokkurntíma fengið. Pínulítill, ofursterkur expressobolli með miiiiklum sykri. Ég sá til þess að ekki eitt sykurkorn fór til spillis. Namm namm. Þarna var ég orðinn betri í mallanum og fékk mér meiri krafta-pasta-súpu.

[Þarna er maður pínu þreyttur, en kaffibollinn góði hressti heldur betur.]

[Ferðafélagar síðustu 40 kílómetrana eða svo; Ásta og Svanur]

Áfram skyldi haldið. Gamaaan. Ég var löngu hættur að hlusta á pípið í úrinu. Var reyndar nokkuð duglegur til að byrja með að fara eftir næringarplaninu; fékk mér hlaup, svo GU vaffla eftir 42 mín, biti af orkubar eftir næstu 42, svo gel svo hlaup og …svo einhvern vegin fjaraði næringarplanið út. Kannski út af því að næringarstöðvarnar voru mjög góðar en líka vegna lystarleysis í GU vöfflu með kaffibragði eða gel. Borðaði sem sé bara eina vöfflu og eitt gel í byrjun hlaups. Píndi í mig bita og bita af orkustykkjum annað slagið, annars var krafta-pastað réttur dagins, …allan daginn.

[Þarna erum við Ásta örugglega að kyrkja mottó dagsins: GAMAAAAAAAAAAN.]

Næst tók við brattar brekkur niður í þorpið Pella. Þarna fannst mér eins og við værum að skokka í Baveno, þorpinu þar sem hótelið ‚okkar‘ var.  Kannski eru öll þessi þorp eins, veitingastaðir og kirkja og, já svo var maður þarna búinn að vera á ferðinni í 15 klukkutíma og vakandi í meira en sólarhring.

Áfram, áfram, næsta næringarstöð eftir 75km í Grassona. Drífa og Finnur biðu eftir okkur þar, endalaust dugleg að hvetja okkur áfram. Sögðu okkur samt að passa okkur á brautinni þar sem þeim sýndist að bæði Þórdís og Brynja hefðu villst af leið. Við vorum ákveðin í að passa okkur, þarna orðin vel þreytt, en samt gamaaan, er það ekki Ásta? Áfram í gegnum Cesara, síðustu drykkjarstöðina og nú upp mjög svo brattar brekkur Alpe Berru. Mikið vorum við fegin að ná toppnum. Nú vissum við að restin væri ‚bara‘ niður á við. Við vorum löngu hætt að reyna að tipla framhjá pollum, skokkuðum eða gengum bara yfir þetta drullumall.

Við vorum ennþá að hlaupa í birtu og vonuðumst til að geta klárað áður en myrkrið myndi skella á. Það var jú svo stutt eftir, eða það héldum við. Úrið sýndi 10 kílómetra en við ákváðum sisona að það væri nú bara kjaftæði. Svo hljóp einhver Ítali framhjá okkur og kallaði eitthvað á móðurmálinu. Eina sem ég náði var „kilometre“ …þannig að við ákváðum því að það væri bara kílómetri eftir …sem var líka …kjaftæði.

Hvað sem þessu leið þá var lítið annað að gera en að halda áfram, þarna voru ökklarnir farnir að hrjá mig aðeins of mikið. Og svo, eins og hendi væri veifað, skall myrkrið á. Það gerðist svo hratt að ég ímyndaði mér helst að ‚maðurinn á bakvið tjöldin‘, hefði bara snúið dimmernum frá birtu í myrkur á svona þrjátíu sekúndum.  Það var ekkert annað að gera en að finna höfuðljósið, kveikja og halda áfram. Ekkert nema svarta myrkur og einstaka hlaupaljós.

Ásta var aðeins á undan mér og kallaði til mín. Þarna voru hús og götuljós! Gat verið að við værum komin? Ég sá fyrir mér að ég myndi skokka út á götuna beygja til hægri og þar væri endamarkið. En svo var ekki, okkur var vísað beint yfir götuna og út í móa. Meira myrkur og enn meiri drulla. Já, meiri drulla en nokkru sinni fyrr og sleipir steinar í þokkabót.

Til þessa höfðum við verið mjög dugleg við að hvetja hvort annað áfram, halda gleðinni og hafa GAMAN. En ég verð að viðurkenna að á þessum tímapunkti missti ég smá gleðina.  Ég minnti meira á spýtukall en hlaupara og nú átti ég að komast niður þverhníptar brekkur, í svarta myrkri og drullusvaði. Ég tók á það ráð að grípa í allar trjágreinar sem ég sá og náði að komast niður eins og Tarsan í trjánum, Ástu til mikillar MIKILLAR skemmtunar, svo ekki sé meira sagt.

Þessir síðustu kílómetrar höfðu verið langir, lengri en venjulega og miklu lengri að líða en venjulega. Ég man að þegar ég kvaddi Drífu á síðustu drykkjarstöðinni voru u.þ.b. 15 kílómetrar eftir, þá sagði ég við hana, við sjáumst svo eftir tvo tíma!  Gleymdi alveg þessu eina fjalli þarna sem við áttum eftir að fara yfir. En á þessum tímapunkti sirka 4 – 5 tímum eftir að ég kvaddi Drífu var síðasti spölurinn sannarlega framundan. Við vorum komin aftur í Omegna. Við Ásta höfðum talað um að koma hlaupandi í mark „4 pace“ sagði Ásta, hún er nú ekki kölluð “Ásta sprettur” fyrir ekki neitt. Og nú var loka‘spretturinn‘ framundan. „Ég ætla að hlaupa“, sagði Ásta. Og ég skakklappaðist á eftir. Gat meira að segja hlaupið. GAMAN. Við tókum framúr fullt af hlaupurum sem gengu síðasta spölinn.  Og ég hugsaði að þetta væri nú bera ansi fínn lokasprettur.

Strava hafði reyndar svo mikla trú á mér að ég fékk PR: Best estimated 1k effort (3:38). Það hefði verið hægt að ljúga að mér hverju sem er eftir hlaupið, þannig að ég ákvað bara að trúa þessu. Alveg þangað til að Gísli FH-ingur benti mér á að næsta PR sem Strava gaf mér; Best estimated 400m effort (45s) væri nokkurn vegin Íslandsmet í 400 metrum, þannig að …eitthvað var nú bogið við þessar Strava mælingar. Ætli þessi lokasprettur minn hafi ekki verið eitthvað nær 5:45 pace.

Hvað um það. Það toppaði svo allt á þessum “svakalega” lokaspretti mínum þegar Friðleifur kom á móti með íslenska fánann. Þessa upplifun fengu allir 84 FH-ingarnir.  Þarna hljóp ég í mark eftir 94,4 kílómetra og 5310 metra hækkun með íslenska fánann á lofti eins og alvöru landsliðsmaður í utanvegahlaupum. Og var ég það ekki bara? Tilfinningin var allavegana alveg meiriháttar yfir því að hafa klárað þetta hlaup í mjög svo krefjandi aðstæðum.

[Ótrúlega glaður þegar í mark var komið]

Myndi ég gera þetta aftur? I, já. Það var reyndar ekki liðinn sólarhringur þegar við vorum farin að tala um ‚næsta hlaup‘. Öll samt með einhverskonar verki hér og þar.  Ég var reyndar mjög slæmur í ökklum daginn eftir, "pínu" bólginn og með bjú. Þurfti að nota stafina mína til að skakklappast eins og spítukall þegar ég tók á móti Drífu minni eftir hennar hlaup.  Ég finn meira segja ennþá smá ökklaverk, nú tveim vikum eftir hlaupið. Ég er alveg búinn að hvíla, tekið göngutúr hér og þar. Það er sennilega erfiðasti hlutinn af þessu öllu saman; tíminn eftir hlaup þegar maður má bara ekki gera neitt nema hvíla 😊

Hitt er bara GAMAN.

 

Græjur

Skór: Hoka One One, Speedgoat 4, stærð 44
Sokkar: Compression sokkar frá 2XU
Stuttbuxur frá Compres Sport
Jakki: Thunderstorm frá Compres Sport
Bolur/peysa:  Fyrri hlutinn í Thermo Ultralight frá Compres Sport
Seinni hlutann í hettupeysa frá 66°N
Byrjaði hlaup með húfu og hanska en fór fljótlega úr vegna hita.
Bakpoki: Race Ultra Pro frá Inov8
Mittis‘belti‘: frá Compres Sport
Stafir: Distance Carbon Z frá Black Diamond
Ljós: 2 NU25 ljós frá Nitecore


[Hlaupahópur FH]

laugardagur, 17. október 2020

Hótel Húsafell og Giljaböðin

Í skjóli nætur læddumst við Drífa út í Súbarúinn og heldum sem leið lá úr bænum. Ferðinni var heitið frá covid veseni höfuðborgarinnar og til sælunnar í Húsafelli, Hótel Húsafelli :) Skáluðum í freiðivíni í bleikri flösku, svona í tilefni bleika dagsins og hentum í nett fjar-partý með HS og PP. 

Fórum í göngu upp Bæjargilið og þurftum svo að hlaupa niður til að ná rútunni í Giljaböðin :) Einstaklega skemmtileg upplifun og sannarlega hægt að mæla með Giljaböðunum.













laugardagur, 10. október 2020

Ný myndavél meira blogg :P

 Jæja, búinn að fara sorgmæddur leeengi út af fínu Sony A600 vélinni minni sem var stolið af mér í lok WOW Cyclothon með Team NLS. En, það eru nú komin alveg nokkur ár síðan.

Var sem sé að fá mér nýja(gamla) og netta vél Sony RX100 VA. Sem sé mark 5 af RX100 vélinni. Frekar smágerð en mjög öflug og planið er að prufa að hlaupa með þessa og taka myndir hægri vinstri ...og áfram jafnvel líka :) 


Fórum á Esjuna í dag í dásamlegu veðri, Kristín Jóhanna var með okkur og fórum við Skógarleiðina og svo alveg upp að Steini.