Rok rok. Stelpurnar, Drífa og Steinunn Anna, vöknuðu snemma til að fara með Önnu Vilborgu, Rúnari og Emelíu í búðarferð til Las Palmas. Vel hálfnaðar fóru þær að spá í hvort búðir væru yfirleitt opnar, þar sem það væri nú föstudagurinn laaangi! Jú, það kom á daginn, þeim var sagt að allar búðir væru lokaðar þennan dag! Illt í efni. Þær fóru því að skoða sig um, fóru í messu og svoleiðis. En fyrir eitthvað kraftaverk fundu þær einhvern búðarklasa þar sem opnar voru verslanir
svo viti menn. Allir gátu eitthvað keypt :)
Við hin, Dagný, Kristín og ég tókum deginum rólega. Morgunmatur eins og venjulega, utan þess að við smygluðum út eins og tveim formkökusneiðum. Röltum svo upp á hótel til Önnu og Flosa og gáfum þeim að smakka. Líkaði þeim auðvitað vel. Stelpurnar voru eitthvað svo þreyttar að
við vorum þar bara í mikilli leti.
Lilli og Beta komu einnig í heimsókn til þeirra sem og Kjartan og Kristín. Nanna Dís kom svo til að leika við yngri systurnar. Ég fór með þeim niður að strönd og þær léku sér þar í sjónum. Það var nú heldur hvasst.
Ég lagðist nú niður við nokkurs konar steingerðan varnargarð með reyfarann 'Run' eftir James Patterson. Þegar svo ég sá einhvern íbúann trítla rétt hjá hausnum á mér ...og þá er ég að tala um einhverja rottuna! Þá ákvað ég bara að tími væri kominn til að fara heim á hótel :) Stelpurnar voru alveg til í það og héldu áfram að leika í sundlaugargarðinum.
Um kvöldið fórum við svo aftur í Yumbo center þar sem við snæddum kvöldmat, ýmist pizzu eða nautalundir, sjálfur fékk ég mér risa T-Bone steik. Að því loknu fórum við fjölskyldan í tívolí; Holiday World, og Nanna Dís kom með. Það var farið í rúsíbana, parísarhjól, eitthvað annað 'hjól', sem Steinunn og Dagný fóru í allsvaaakalegt. Einhverskonar rólubát, fallturn og að lokum hina bráðfyndnu El Toros naut :) Okkur fannst mjög fyndið að horfa á stelpurnar hristast á platnautum :D Síðan bara upp á hótel að pakka. Höldum heim á morgun.